26.11.2012 22:35
"Öll kjölfesta farin úr bátnum"
mbl.is:
„Ég tel harla litlar líkur á því,“ sagði Reimar Vilmundarson, skipstjóri á Sædísi ÍS-67 sem fór í leiðangur við tólfta mann til að skoða flakið af Jónínu Brynju ÍS-55 sem strandaði við Straumnes í gær spurður að því hvort hann teldi líkur á að það næðist að bjarga skipinu af strandstað.
„Það er að mestu úr honum botninn. Og vélin og skrúfan að mestu komin út úr bátnum,“ sagði Reimar um ástand skipsins.
Voru að berjast í tveggja metra ölduhæð
Hann segir aðstæður í dag hafa verið mjög erfiðar, en þrátt fyrir logn hafi sjógangur verið mjög mikill. „Við vorum um borð í honum frá tvö til rúmlega fjögur,“ sagði Reimar.
„Við vorum að berjast þarna í nærri tveggja metra ölduhæð við klettana. Það gáfu sig utanborðsmótorar og flotgallar hurfu og ýmislegt gekk á. En við allavega þorðum ekki að ganga lengra. Það er óþarfi að vera að fórna mannslífum fyrir þetta.“
- Náðuð þið að bjarga einhverju?
„Eitthvað tókum við en það á eftir að skoða þá hluti. Aðstæður voru bara skelfilegar við að ná þessu fram. Við gerðum ekkert mikið meira en að ná mönnum fram. Lentum í því að þurfa að taka síðustu mennina langt inni í Vík - það var ekkert hægt að ná þeim fram.“
Þyrfti bæði stórt skip og mikinn búnað
- Hvað er langt í strandstað?
„Þetta er um 17 sjómílur frá Bolungarvík.“
- Er ekki ógerlegt að ná skipinu þessa leið til hafnar miðað við ástand þess?
„Hann fer á hliðina, það er öll kjölfesta og allt farið úr honum. Ég held að þetta verði nánast afskrifað, þó að maður geti ekki sagt lokaorðin um það en það þarf bæði stórt skip og annað til að draga hann fram og mikinn búnað og það er eiginlega ekki nema partur af morgundeginum sem veðurspáin segir að það verði mögulega hægt.
Það verður tekin lokaákvörðun um það í kvöld, en ég sé ekki í fljótu bragði að þetta verði hægt,“ sagði Reimar.



